Hvað er GTD? - Getting Things Done

Viltu vera skilvirkari í starfi þínu? Koma fleira af mikilvægustu málunum í verk?

Fyrir aðeins einni kynslóð síðan voru flestir landsmenn sjómenn, bændur, iðnaðarmenn eða unnu í verksmiðju. Í dag erum við langflest þekkingarstarfsmenn. Þekkingarstjórnun og verkefnavinna er list út af fyrir sig. Þessi list er ekki kennd í skólakerfinu og við þurfum að læra hana upp á eigin spýtur.

Höfuðið er til að fá hugmyndir - ekki til að halda í þær

Getting Things Done (GTD) er aðferð til að auka framleiðni sem David Allen þróaði og skrifaði um í samnefndri bók sem kom út árið 2001.

Megininntakið í aðferðafræðinni er að geyma ekki skuldbindingar og hugmyndir í höfðinu heldur færa þær í kerfi sem þú getur treyst. Ef farið er nógu oft í gegnum kerfið förum við að treysta því sem okkar eigin.

Getting Things Done (GTD) lýsir góðum venjum sem hægt er að læra og tileinka sér. Þessar venjur tengjast innbyrðis og mynda markvisst verkefnastjórnunarkerfi sem eykur framleiðni og dregur úr streitu.

 

Rökin fyrir aðferðinni

Ef þú geymir hugmyndir og skuldbindingar ekki í höfðinu opnast fyrir það sem David Allen kallar sálrænt vinnsluminni sem þú getur notað til að koma hlutum raunverulega í verk og vera skapandi.

Allen byggir kenningu sína meðal annars á rannsókn George A. Miller frá 1956: The Magical Number Seven, Plus or Minus Two þar sem því er lýst að „vinnsluminni“ heilans hefur burði til að geyma sjö atriði samtímis, plús eða mínus tvö. Ef nýtt atriði bætist við dettur eldra atriði úr vinnsluminninu. Allen vill meina að sé höfuðið uppfullt af hugsunum um hugmyndir og skuldbindingar starfir þú ekki eins vel og þú getur, og þá myndast neikvæð streita af völdum ókláraðra eða illa unninna verkefna.

Með því að geyma hugmyndir og skuldbindingar utan við höfuðið í kerfi sem þú treystir dregurðu úr streitu og eykur framleiðni.

Hausinn er ekki innhólf